Innlent

Vilja að Hanna Birna segi af sér

Heimir Már Pétursson skrifar
Flokksráðsfundur Vinstri grænna krefst þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segi af sér embætti, meðal annars fyrir að hafa sagt Alþingi ósatt og afskipti hennar af rannsókn lekamálsins.

Flokksráðsfundur Vinstri grænna hófst í Flensborgarskóla í Hafnarfirði í gær og lauk í dag með afgreiðslu ályktana um ýmis mál. Meðal annars var samþykkt ályktun um að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segði af sér embætti.

Er ekki nóg að hún hafi sagt af sér dómsmálunum?



„Fundurinn ályktaði þetta, að réttast væri að ráðherra segði af sér og nefnir raunar til þess þrjú tilefni. Þannig að það er alveg ljóst hvernig hugur er hér í fólki,“ segir Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.

Þau atriði sem nefnd eru í ályktuninni sem tilefni til afsagnar innanríkisráðherrans sé einkum þrenn.

„Það er að segja lekinn sjálfur. Það er síðan upplýsingagjöf ráðherra gagnvart þinginu þar sem rangt hefur verið farið með einhverjar staðreyndir að því er virðist vera. Og síðan meint afskipti af rannsókn málsins,“ segir Katrín.

Umboðsmaður Alþingis ákvað eftir bréfasamskipti við innanríkisráðherra að hefja frumkvæðisathugun á embættisfærslum Hönnu Birnu vegna þessa máls.

Munið þið þingmenn flokksins fylgja þessu eftir á Alþingi og leggja beinlínis fram tillögu um þetta?



„Það liggur alveg fyrir að við munum bíða eftir áliti Umboðsmanns Alþingis áður en við aðhöfumst nokkuð í málinu,“ segir Katrín. Það komi ekki á óvart að þungt sé kveðið að orði í ályktuninni. Hún hafi sjálf sagt að hyggilegast hefði verið fyrir innanríkisráðherra að víkja sæti.

„Og það má segja að hér sé fólk sammála um það,“ segir Katrín Jakobsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×