Innlent

Biðtími eftir líffæraígræðslum hefur reynst of langur

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Taka þurfti sjúkling af biðlista árið 2011 þar sem hann var orðinn óskurðhæfur en annar lést á meðan biðinni stóð.
Taka þurfti sjúkling af biðlista árið 2011 þar sem hann var orðinn óskurðhæfur en annar lést á meðan biðinni stóð. Vísir
Tíu Íslendingar bíða þess að fá grætt í sig nýtt nýra. Enginn er á biðlista eftir nýju hjarta en einn bíður eftir nýrri lifur og annar eftir lunga. Þetta kemur fram í svörum Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingkonu Framsóknar.

Í nokkrum tilvikum hefur biðtíminn eftir nýrri lifur verið of langur að mati lifrarlækna á Landspítalanum. Árið 2012 lést sjúklingur sem var á biðlista fyrir bæði lifur og nýru en árið áður var sjúklingur með lifrarfrumukrabbamein metinn óskurðtækur eftir sex mánaða bið og því tekinn af biðlista.

Meðalbiðtími eftir nýra frá látnum gjafa hefur verið 23 mánuðir en biðtíminn er æði misjafn. Þannig getur hann verið allt frá tveimur mánuðum upp í sjö og hálft ár. „Alls hafa fimm einstaklingar beðið í þrjú ár eða lengur,“ segir í svarinu.

Ekki hefur þurft að bíða jafn lengi eftir öðrum líffæraígræðslum sem tilteknar eru í fyrirspurninni en fimm mánaða biðtími er eftir hjarta og fimm og hálfur mánuður eftir lifur, sé einstakt tilfelli þar sem einstaklingur beið í 34 mánuði er ekki talið með.

Talsverður munur er á biðtíma getur verið á líffæraígræðslum á milli landa en í svarinu er fjallað um stöðuna í Noregi og Svíþjóð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×