Fyrir hálfri öld stóðu húsmæðraskólar með blóma í helstu héruðum landsins. Þeir voru tíu talsins en nú eru aðeins tveir eftir; í Reykjavík og sá á Hallormsstað. Þegar spurt er hversvegna hann lifði af, einn sveitaskólanna, meðan hinir lögðust af í rauðsokkabyltingunni upp úr 1970 segir skólameistarinn, Bryndís Fiona Ford, að samstaða heimamanna hafi ráðið úrslitum.

Aðsóknin hrundi líka að þessum skóla en í umbreytingarferli dóu Austfirðingar ekki ráðalausir. Benedikt Blöndal á Hallormsstað, sem snattast hefur í kringum skólann frá unga aldri, segir að þá hafi mönnum hugkvæmst að hafa þar heimilisfræðikennslu fyrir grunnskólabörn af Austurlandi.
„Raunverulega hugsa ég að það hafi bara bjargað skólanum,“ segir Benedikt.
Áður fyrr var þetta tveggja vetra nám en er núna einnar annar. Á haustönninni núna eru nítján stúlkur og einn piltur í skólanum. Í matsalnum spurðum við nemendur hvort þeim þætti skólinn gamaldags eða nútímalegur. Sóley Þrastardóttir, 18 ára nemandi úr Njarðvík, svaraði spurningunni þannig að það skipti ekki máli hvort þú værir fæddur 1960 eða 2030.
„Þetta er eitthvað sem þú átt alltaf eftir að geta notað. Þú átt eftir að elda, alltaf. Þú getur alltaf prjónað, alltaf saumað. Þú þarft að strauja og þvo skó og svoleiðis. Þannig að mér finnst þetta alltaf nútímalegur skóli,“ sagði Sóley.
Í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 kl. 19.25 annaðkvöld, þriðjudagskvöld, kynnumst við lífinu í Handverks- og hússtjórnarskólanum á Hallormsstað.
