Skoðun

Neyðarakstur og þrenging gatna

Björn Gíslason skrifar
Meirihluti borgarstjórnar þ.e. Samfylkingin og Björt framtíð, þrengja markvisst að fjölskyldubílnum og er það yfirlýst stefna samkvæmt nýju aðalskipulagi höfuðborgarinnar að breyta umferðarkerfinu og þar með daglegum ferðavenjum íbúa borgarinnar.

Stefnunni hefur þegar verið komið í framkvæmd með þrengingu gatna og fækkun bílastæða sbr. Snorrabraut, Borgartún og Hofsvallagata.

Samkvæmt aðalskipulagi/hverfisskipulagi á m.a. að þrengja Miklubraut frá Kringlumýrarbraut að Lönguhlíð, Hringbraut frá Melatorgi og út á Eiðisgranda og svo Gullinbrú í Grafarvogi. Þetta eiga að vera svokallaðar „Borgargötur“ þar sem auk þrengingar er dregið úr umferðarhraða. Hætt verður við gerð mannvirkja sem greiða fyrir bílaumferð s.s. mislægra gatnamóta.

Mínútur geta skipt máli

Þrenging gatna sem jafnframt eru stofnbrautir er alvörumál fyrir aðila sem sinna neyðarþjónustu eins og lögreglu, sjúkralið og slökkvilið. Þessir aðilar þurfa oft að komast sem fyrst á útkallsstað og í sumum tilfellum getur verið um mannslíf að ræða. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnir sjúkraflutningum á höfuðborgarsvæðinu og eru um 25 þúsund sjúkraflutningar framkvæmdir árlega. 25-30% af þeim eru neyðar- og bráðaflutningar og langflestir í höfuðborginni.

Því er ljóst að fyrirhugaðar þrengingar á stofnbrautum í Reykjavík verða til þess að aðilar sem sinna neyðarþjónustu komast seinna á útkallsstað.

Samráð við lögreglu, slökkvilið o.fl. er nokkuð sem verður að hafa við gerð umferðarskipulags en samráð er nokkuð sem núverandi borgaryfirvöld virðast eingöngu tala um á tyllidögum.

Við megum ekki velja okkur skipulag sem minnkar gæði neyðarþjónustu við okkur og við eigum að hafa að leiðarljósi í samgöngumálum í Reykjavík að tryggja val á milli ólíkra samgöngukosta, hvort sem fólk kýs að nota almenningssamgöngur, fjölskyldubílinn, hjól eða tvo jafnfljóta.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×