Innlent

Sjálfstæðismenn munu styðja tillögu um viðræðuslit

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/GVA
Sjálfstæðisflokkurinn mun styðja tillögu við að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið komi hún fram á Alþingi. Bjarni Benediktsson segir að flokkurinn muni styðja tillögu líkt og þá sem fram kom á haustþingi. RÚV greinir frá þessu.

„Já já, við myndum gera það með sama hætti og við gerðum síðast,“ sagði Bjarni í samtali við RÚV. Bendir hann á að málið hafi verið á þingmálaskrá utanríkisráðherra síðan í haust. Ekkert hafi í sjálfu sér breyst síðan tillagan var lögð fram síðast.

Tillaga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að slíta aðildarviðræðunum var harðlega gagnrýnd á síðasta ári. Á endanum fór það svo að tillagan var dregin til baka. Nú stendur til að leggja hana fram, jafnvel á fyrstu mánuðum þingsins. Þingið kemur saman að nýju eftir jólafrí í næstu viku.

Viðræður við Evrópusambandið hafa legið niðri síðan í tíð síðustu ríkisstjórnar en þeim hefur ekki verið slitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×