Einar Daði Lárusson, frjálsíþróttamaður í ÍR, náði sinni bestu sjöþraut á ferlinum í kvöld er hann náði 5859 stigum á sjöþrautarkeppni í Laugardalshöllinni.
Einar Daði er að keppa um að fá boð á EM innanhúss í Prag sem hefst eftir tvær vikur en þrautin í kvöld skilar honum í tíunda sæti heimslistans.
Fimmtán bestu sjöþrautarkappar Evrópu fá boð á mótið og eru miklar líkur á að Einar Daði verði einn þeirra eftir árangur kvöldsins.
Einar Daði bætti sinn besta árangur um rúmlega 100 stig en best átti hann 5726 stig sem hann náði á Meistaramótinu í fjölþrautum í síðasta mánuði.
Hann náði sínum besta árangri í hástökki á ferlinum er hann stökk 2,08 m en þar að auki stökk hann 4,75 m í stangarstökki, hljóp 60 m grindahlaup á 8,15 sekúndum og 1000 m hlaup á 2:46,37 mínútum.
Þar að auki hljóp hann 60 m hlaup á 7,15 sekúndum, stökk 7,29 m í langstökki og kastaði 13,31 m í kúluvarpi.
Ingi Rúnar Kristinsson keppti einnig í sjöþraut á mótinu og fékk 5339 stig. Hann var einungis sex stigum frá sinni bestu þraut á ferlinum.

