Innlent

430 milljónir í kostnað vegna skuldaaðgerða ríkisstjórnarinnar

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Frá kynningu skuldalækkunaraðgerða ríkisstjórnarinnar.
Frá kynningu skuldalækkunaraðgerða ríkisstjórnarinnar. Vísir/GVA
Áætlaður kostnaður við framkvæmd og kynningu á niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra fasteignaveðlána er samtals 427,3 milljónir króna í ár og á síðasta ári. Þar til viðbótar kemur kostnaður vegna framkvæmdar og kynningar á ráðstöfun séreignasparnaðar til lækkunar húsnæðislána.

Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, á Alþingi í dag. Þar kemur einnig fram að kostnaður vegna verkefnisstjórnar var áætlaður 115 milljónir á síðasta ári og 16,7 milljónir í ár. Það er í samræmi við áætlanir stjórnvalda, samkvæmt svarinu.

Ekki var hægt að sundurgreina kostnað sem fellur til hjá embætti ríkisskattsstjóra eftir niðurfærslunni annars vegar og úrræða vegna nýtingar séreignalífeyrissparnaðar til lækkunar húsnæðislána hins vegar. Heildarkostnaður ríkisskattsstjóra vegna beggja verkefna, sem saman hafa verið kölluð leiðréttingin, var 279 milljónir á síðasta ári.

Upphaflega átti ríkisskattstjóri ekki að vinna að framkvæmd niðurfærslunnar heldur átti það að vera í höndum banka og annarra lánastofnana. Þegar verkefnið var komið af stað var það hins vegar metið svo að mikilvægt væri að vinna úr umsóknum með samræmdum hætti og embættinu því falin miðlæg framkvæmd verkefnanna.

Almannatengsla- og kynningarkostnaður beggja verkefna nam 33,7 milljónum króna, en það eru 10,8 prósent af heildarkostnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×