Handbolti

Ísak: Nú voru allir með Val en við vinnum þá - hvað segir það um okkur?

Tómas Þór Þórðarson í Laugardalshöll skrifar
Ísak skoraði ellefu mörk í leiknum.
Ísak skoraði ellefu mörk í leiknum. vísir/andri marinó
"Við vorum ekki að fara að tapa aftur fyrir Val, það kom bara ekki til greina," sagði sigurreifur Ísak Rafnsson, stórskytta FH, við Vísi eftir ótrúlegan sigur FH, 44-40, í tvíframlengdum undanúrslitaleik Coca Cola-bikars karla í kvöld.

Valsmenn unnu tvo deildarleiki gegn FH með fjögurra daga millibili fyrr í mánuðinum, en nú voru það Hafnfirðingarnir sem höfðu betur.

"Það sást bara inn á vellinum hvað við vorum hungraðir. Sama hversu mikið við lentum undir þá komum við alltaf til baka. Djöfull var þetta sætt!"

FH lenti 30-26 undir og missti Andra Berg Haraldsson af velli, en kom engu að síður til baka og tryggði sér sigurinn.

"Við pældum ekkert í því þó Andri væri farinn út af. Það kemur bara maður í manns stað. Við erum búnir að vera með forföll í vetur en það virðist enginn þurfa að fjalla um það. Svo meiðast einhverjir leikmenn hjá Val og þá er það ástæðan fyrir því að þeir unnu okkur ekki stærra um daginn. Nú voru allir með hjá Val en við vinnum þá. Hvað segir það um okkur?" spurði Ísak ákveðinn.

"Valur er auðvitað með frábært handboltalið en við erum það líka. Það gleymist stundum í umræðunni."

Nú spiluðu FH-ingar 80 mínútur af hröðum handbolta og eiga úrslitaleik á morgun. Verða þeir ekkert þreyttir á morgun? "Það er bara betra. Þá er styttra í leikinn á morgun," sagði Ísak Rafnsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×