Innlent

Hefur lagt fram frumvarp um að leyfa gengistryggð lán

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt frumvarpið fram á Alþingi.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt frumvarpið fram á Alþingi. Vísir/Pjetur
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt fram frumvarp til laga sem heimilar einstaklingum að taka gengistryggð lán. Eins og flestum er kunnugt er slík lántaka ekki heimil en gengistryggð lán voru dæmd ólögleg í Hæstarétti árið 2010.



Í frumvarpinu kemur fram að það byggist á hluta á tillögum nefndar sem var falið það verkefni að endurskoða bann við gengistryggingu og innleiðingu varðúðarreglna vegna hættu sem stafar af erlendum lánum. Nefndina skipuðu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis, innanríkisráðuneytis, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.



Með frumvaprinu er brugðist við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, sem telur að bann íslenskra laga við gengistryggingu samræmist ekki meginreglu EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði.



Stofnunin sendi íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit stofnunarinnar þann 22. maí árið 2013 en síðan þá hefur stofnunin stjórnvöldum ljóst að verði hinu fortakslausa banni ekki aflétt megi búast við að málinu verði stefnt fyrir EFTA-dómstólinn, að því er segir í frumvarpinu.

Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að Seðlabankanum verði heimilt, að fengnum tilmælum fjármálastöðugleikaráðs, að setja lánastofnunum reglur um erlend lán í þeim tilgangi að takmarka lántökur aðila, annarra en lánastofnana, sem ekki eru varðar fyrir gjaldeyrisáhættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×