Innlent

Halldór segir ályktun bæjarráðs Fljótsdalshéraðs lýsa örvæntingu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Halldór Halldórsson er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni.
Halldór Halldórsson er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni. Vísir/Pjetur/Vilhelm
Bæjarráð Fljótsdalshéraðs samþykkti í gær að lýsa yfir stuðningi við lagafrumvarp þess efnis að skipulagsvald Reykjavíkurflugvallar verði í höndum ríkisvaldsins. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir þessa ályktun lýsa örvæntingu.

„Þetta kom mér verulega á óvart ef ég á að segja alveg eins og er vegna þess að ég hefði haldið að sveitarfélögin stæðu algjörlega saman um það að það beri að virða sjálfstjórnarvaldið og skipulagsvaldið er einn af hornsteinum þess.“

Sjá einnig: Styðja að borgin verði svipt valdi yfir flugvelli

Halldór segist að fyrir sitt leyti sé hann alveg harður á því að það verði að vera flugvöllur í Reykjavík en hann sér enga lausn í því að Alþingi taki skipulagsvaldið af borgarstjórn. „Það getur alveg komið nýr meirihluti á Alþingi sem er annarrar skoðunar einhvern tíamnn og vilji flugvöllinn í burtu alveg eins og það gerist í borgarstjórn. Sveitarfélög eiga bara að útkljá þessi mál sjálf og eiga auðvitað að hlusta á raddir fólksins í því.“

Bæjarráðið á Héraði, þar sem Egilsstaðaflugvöllur er, telur að uppi séu og geti verið aðstæður sem réttlæta inngrip stjórnvalda landsins alls í ákveðnar skipulagsáætlanir. Og í samþykkt bæjarráðs er mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir landið allt áréttað.

„Þetta lýsir ákveðinni örvæntingu gagnvart Reykjavíkurflugvallar málinu. Ég skil það vel. Ég tel að þetta endurspegli því miður það að núverandi meirihluti í Reykjavík hafi einhfaldlega gengið of langt,“ sagði Halldór. „En þetta er ekki leiðin.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×