Innlent

Þrír metnir hæfastir til embættis héraðsdómara

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur stendur við Lækjartorg.
Héraðsdómur Reykjavíkur stendur við Lækjartorg. Vísir/Valli
Arnar Þór Jónsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, Lárentsínus Kristjánsson hæstaréttarlögmaður og Pétur Dam Leifsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands voru metnir hæfastir til að hljóta skipun í embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Alls sóttu sjö manns um starfið en það var auglýst í Lögbirtingarblaðinu 12. júní síðastliðinn.

Niðurstaða dómnefndarinnar er að þessir þrír séu jafn hæfir í embættið en innanríkisráðuneytið fól dómnefnd, í samræmi við lög um dómstóla, að meta hæfi þeirra.

Aðrir sem sóttu um starfið voru Berglind Bára Sigurjónsdóttir, skrifstofustjóri umboðsmanns Alþingis, Hafsteinn Dan Kristjánsson, aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis, Stefanía G. Sæmundsdóttir, settur saksóknari og Stefán Erlendsson, héraðsdómslögmaður og lögfræðingur hjá Vegagerðinni.

Dómnefnd á að gæta þess að samræmis sé gætt þannig að jafnræði sé í heiðri haft eins og segir í umsögn dómnefndar. Hana má nálgast í heild sinni hér. Dómnefndin byggir mat sitt á eftirfarandi atriðum: menntun, starfsferli og fræðilegri þekkingu, aukastörfum og félagsstörfum, almennri starfshæfni , sérstakri starfshæfni og andlegu atgervi. Þá voru umsækjendur teknir í viðtöl í ágúst.

Nefndarmenn voru Eggert Óskarsson, Jakob R. Möller, Anna Mjöll Karlsdóttir og Guðrún Björk Bjarnadóttir sátu í nefndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×