Erlent

Telur að Evrópa myndi fórna Græn­landi fyrir NATÓ

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor segir yfirlýsingar Bandaríkjaforseta um Grænland hafa haft í för með sér að fleiri Íslendingar horfi til Evrópusambandsins.
Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor segir yfirlýsingar Bandaríkjaforseta um Grænland hafa haft í för með sér að fleiri Íslendingar horfi til Evrópusambandsins. Vísir/Vilhelm

Bandaríkin hafa burði til að innlima Grænland ætli þau sér það að mati fyrrverandi utanríkisráðherra. Prófessor í stjórnmálafræði tekur undir það og segir ólíklegt að Evrópa muni fórna NATO fyrir Grænland. Yfirlýsingar Bandaríkjaforseta um Grænland hafi þegar haft það í för með sér að fleiri Íslendingar horfi í átt að Evrópusambandinu.

Frá hans fyrra kjörtímabili hafa Donald Trump forseti Bandaríkjanna og ráðamenn í Washington ítrekað lýst því yfir að þeir ætli sér að eignast Grænland. Eftir nýjustu vendingar í Venesúela hafa forsetinn og hans fólk bætt í og talað um nauðsyn þess að eignast Grænland af þjóðaröryggisástæðum. Málið var rætt í sérstöku pallborði í Háskóla Íslands í dag. En á meðal þátttakenda var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fyrrverandi utanríkisráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Bandaríkin hafa augljóslega bæði hernaðarlega getu og bara einfaldlega aðgengi að Grænlandi til þess að framkvæma slíka aðgerð. Ég auðvitað vona enn þá að þetta séu svona stór orð til þess að ná einhverju öðru markmiði og það sé ekki raunveruleg áætlun stjórnvalda í Bandaríkjunum að innlima Grænland, en okkur er líka sagt að taka orðum hans alvarlega þannig að við verðum að gera það,“ segir Þórdís Kolbrún.

Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði tekur undir orð Þórdísar og segir Bandaríkjamenn geta tekið yfir Grænland vilji þeir það.

„Ef þessi ólíklega staða yrði að veruleika, þá myndu auðvitað dönsk stjórnvöld og nær öll Evrópuríki mótmæla harðlega. Það mætti gera ráð fyrir að dönsk stjórnvöld myndu slíta stjórnmálasambandi við Bandaríkin og einhver kannski myndu fylgja í kjölfarið. En ég myndi nú telja að í lok dags þá sé meginþorri Evrópuríkja ekki tilbúinn til þess að fórna NATO fyrir Grænland. Þannig að menn myndu líklega sætta sig við það að Bandaríkin tækju yfir landið til þess að reyna að halda áfram varnartengslunum við Bandaríkin og að halda NATO enn þá lifandi.“

Hann segir yfirlýsingar Bandaríkjaforseta um Grænland þegar hafa haft það í för með sér að fleiri Íslendingar horfi í átt að Evrópusambandinu. Íslendingar þurfi að skoða sérstaklega öryggisákvæði Evrópusambandsins sem feli í sér að öll 27 ríki sambandsins eigi að koma öðrum til aðstoðar þegar mikið liggi við.

„Hvað felst í þessu, hvaða tækifæri liggja í þessu fyrir okkur og þetta kemur engan veginn í veg fyrir að við getum haldið áfram varnar- og öryggissamstarfinu við Bandaríkin, enda eru náttúrulega flest aðildarríki Evrópusambandsins líka innan Atlantshafsbandalagsins.“

Þórdís telur mikilvægt að taka umræðuna um Evrópumál á ábyrgan hátt.

„Þessir hagsmunir sem eru undir og þessar breytingar sem við sjáum í veröldinni núna eru svo miklu stærri heldur en einhver flokkapólitík og það á við um stjórnmálamenn úr meirihlutanum og minnihlutanum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×