Dýrasta olíuleit við Ísland til þessa á vegum sérleyfishafa hefst í kvöld þegar rannsóknarleiðangur tveggja skipa heldur á Drekasvæðið frá Austfjörðum. Um eitt hundrað manns taka þátt í verkefninu.
Rannsóknarskipið Oceanic Challenger sigldi inn til Reyðarfjarðar í Austfjarðaþokunni í morgun en um borð eru um 60 manns. Aðstoðarskip með 12 manns um borð kom síðdegis en saman halda þau svo í kvöld áleiðis á Drekasvæðið.
Kínverska ríkisolíufélagið CNOOC fer fyrir leitinni og eru fulltrúar þess komnir til Reyðarfjarðar til að taka þátt í verkefninu. Við komu skipanna til hafnar í dag mátti einnig sjá fulltrúa annarra handhafa sérleyfisins; norska ríkisolíufélagsins Petoro og íslenska félagsins Eykons. Fulltrúi Orkustofnunar og bæjarstjóri Fjarðabyggðar voru einnig viðstaddir.

Athygli vekur að olíuleitin fer af stað á sama tíma og olíufélög halda að sér höndum um allan heim vegna verðfalls á olíu.
„Þetta segir nefnilega dálítið margt um Drekasvæðið. Þar er möguleiki á að finna mjög stórar lindir,“ segir Heiðar Már Guðjónsson, stjórnarformaður Eykons, í viðtali við Stöð 2 á bryggjunni á Reyðarfirði.
„Við erum staðfastari í trúnni en áður. Við erum náttúrlega að vinna með tveimur risafyrirtækjum, Petoro og CNOOC. Þeir þekkja þetta betur en við. Þau halda leitinni áfram ótrauð. Við erum mjög ánægð með það,“ segir Heiðar.
Auk um sjötíu manns um borð í skipunum starfa um þrjátíu manns í landi við verkefnið, meðal annars við úrvinnslu gagna. Áætlað er að skipin verði 24 daga á Drekasvæðinu. Fyrirtækin eru þannig þegar farin að setja háar fjárhæðir í olíuleitina, bara þessi áfangi verkefnisins er talinn kosta um einn milljarð króna.

Skipin munu leita ummerkja olíu undir hafsbotni Drekasvæðisins með bergmálsmælingum en tilvist olíu þarf síðan að staðfesta með borunum.
„Við erum með áætlun um að bora þrjár holur. Upprunalega ætluðum við bara að bora eina, - við erum komnir með það upp í þrjár. Þá fyrstu árið 2020, aðra 2022 og þá þriðju 2023. Þannig að við erum væntanlega upp úr 2018-2019 að fara að skipuleggja borunina,“ segir Heiðar Már Guðjónsson.