Innlent

Segir hugmyndir um samfélagsbanka úreltar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra  í ræðustól Alþingis.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í ræðustól Alþingis. vísir/pjetur
Hugmyndir um að reka banka á öðrum forsendum en arðsemisforsendum eru úreltar, að mati Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Bjarni sagði þetta við fyrstu umræðum um fjárlög sem fram fór í gær. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, minnti á að Framsóknarflokkurinn, samstarfsflokkur sjálfstæðismanna í ríkisstjórn, hefði samþykkt ályktun á síðasta landsfundi um að rétt væri að Landsbankinn ætti að vera áfram í ríkiseigu.

Þessi ályktun er í takti við skoðanir Frosta Sigurjónssonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar, og hefur Össur Skarphéðinsson tekið undir þær. Katrín spurði því hvort Bjarni hefði stuðning síns samstarfsflokks um að selja 30% hlut í Landsbankanum, eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Bjarni kvaðst njóta stuðnings og að rétt væri að halda til streitu áformum um söluna. „Ég tel í fyrsta lagi að það sé mikilvægt til þess að greiða niður skuldir og ég tel að það sé í öðru lagi mikilvægt til þess að fá dreifðari eignaraðild að bankanum. Og varðandi hugmyndir sumra um að bankinn verði áfram í eigu ríkisins þá er það mín skoðun að ríkið eigi að eiga um 40 prósent í bankanum og vera þannig aðaleigandi bankans og ráðandi hluthafi í bankanum,“ segir Bjarni. Eðlilegt væri að finna eigendur að hinum 60 prósentunum. „Og hugmyndir um að fjármálastofnanir eins og Landsbankinn sem eru í samkeppni við aðra banka á landinu eigi að vera reknir með einhverju öðru heldur en arðsemismarkmiði. Það held ég að séu hugmyndir sem eru úreltar. Og slíkar hugmyndir og slíkar tilraunir hafa kostað okkur gríðarlegar fjárhæðir. Ég nefni Íbúða­lánasjóð þar sem dæmi,“ segir hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×