Innlent

Telja úrskurð fordæmisgefandi

Sveinn Arnarsson skrifar
Landsneti er gert að skoða lagningu jarðstrengs til jafns við loftlínu hvað varðar Kröflulínu 3. Landvernd fagnar úrskurðinum.
Landsneti er gert að skoða lagningu jarðstrengs til jafns við loftlínu hvað varðar Kröflulínu 3. Landvernd fagnar úrskurðinum. Mynd/Landsnet
Landsnet fagnar úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem fyrirtækinu er gert að skoða jarðstreng sem valkost við lagningu Kröflulínu 3, frá Kröfluvirkjun austur að Fljótsdalsstöð.

Í Fréttatilkynninu Landsnets segir að niðurstaðan skýri þær kröfur sem gerðar verði til Skipulagsstofnunar og Landsnets við gerð umhverfismats í framtíðinni. „Til að eyða óvissu um á hvaða hlutum línuleiðarinnar skuli meta jarðstrengi er mikilvægt að mati Landsnets að fyrir liggi stefna stjórnvalda um lagningu raflína en fyrir Alþingi liggur nú þingsályktunartillaga iðnaðar- og viðskiptaráðherra um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína,“ segir í tilkynningunni.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segist einnig fagna úrskurðinum en telur hann jafnframt hafa fordæmisgildi fyrir frekari vinnu Landsnets.

„Skipulagsstofnun stendur frammi fyrir ákvörðun um hvort endurmeta eigi umhverfismat fyrir stórar 220kV raflínur, meðal annars frá Blönduvirkjun til Akureyrar og frá Kröflu að iðnaðarsvæðinu á Bakka við Húsavík,“ segir Guðmundur Ingi. „Úrskurður nefndarinnar hlýtur að hafa áhrif á allar framtíðarákvarðanir Skipulagsstofnunar og þar með talið ákvarðanir um endurgerð umhverfismats þar sem meðal annars er komið inn á nauðsyn þess að meta umhverfisáhrif jarðstrengja til jafns á við loftlínur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×