Viðskipti innlent

Ferðamenn eyddu 61% meira á fyrsta ársfjórðungi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Í mars komu um 116 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu.
Í mars komu um 116 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Vísir/Valli
Erlend greiðslukortavelta í mars síðastliðnum nam tæpum 15 milljörðum króna samanborið við 9,7 milljarða í mars 2015. Um er að ræða 55 prósent aukningu á milli ára. Sé litið á fyrsta ársfjórðung í heild nam kortavelta erlendra ferðamanna um 40 milljörðum króna, það gerir 61 prósent aukningu á milli ára en kortaveltan var 24,7 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi árið 2015.

Kortavelta á hvern erlendan ferðamann sem kom til landsins í mars jókst um rúmlega 12 prósent miðað við sama mánuð í fyrra.

Erlend kortavelta í mars jókst í öllum útgjaldaliðum. Líkt og í febrúarmánuði var mikil aukning í farþegaflutningum, eða 131 prósent frá sama mánuði í fyrra. Erlendir aðilar greiddu í mars með kortum sínum alls 3,2 milljarða króna fyrir farþegaflutninga, en til að setja vöxt undanfarinna missera í samhengi má nefna að kortavelta í sama flokk nam 3,7 milljörðum allt árið 2013. Jafnframt er mars fimmti mánuðurinn í röð þar sem greiðslukortavelta vegna flugferða meira en tvöfaldast frá fyrra ári.

Þá var í mars töluverð aukning í kortaveltu ferðamanna í verslun og versluðu ferðamenn fyrir rúmlega 1,7 milljarð, sem er 40 prósent meira en í sama mánuði í fyrra. Mestur var vöxturinn í dagvöruverslun, um 85 prósent og þar næst, 51 prósent í fataverslun.

Kortavelta ferðamanna í bílaleigum í mars var um helmingi meiri en í sama mánuði í fyrra og hefur hún tvöfaldast frá mars 2014. Í öðrum flokkum jókst kortavelta einnig á milli ára, sem dæmi um 53 prósent í veitingaþjónustu og 43 prósent í gistiþjónustu.

Í mars komu um 116 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 38 prósent fleiri en í sama mánuði í fyrra. Til samanburðar eru það fleiri ferðamenn en komu í júní 2014, þriðja fjölmennasta ferðamannamánuði þess árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×