Skoðun

Leiðrétting á rangfærslum

Jóhannes Stefánsson skrifar
Í lok árs 2014 lét LÍN framkvæma óháða úttekt á því hvað kostaði fyrir nemendur að framfleyta sér í öllum löndum þar sem íslenskir námsmenn tóku lán hjá sjóðnum, til þess að kanna hvort framfærslulán nægðu fyrir framfærsluþörf.

Í ljós kom að í sumum löndum voru íslenskir námsmenn erlendis með margföld framfærslulán miðað við framfærslu í þeim ríkjum sem þeir stunduðu nám. Á sama tíma þurftu stúdentar við nám á Íslandi, sem er langstærsti hópur lántakenda, að sætta sig við skerta framfærslu. Þetta ber að skoða í því samhengi að framfærslulán LÍN eru að helmingshluta styrkur, og sjóðurinn er rekinn sem félagslegur jöfnunarsjóður.

Nemar fá lánað í erlendri mynt

Skýringar þessa misræmis má meðal annars rekja til þess að í upphafi síðasta kjörtímabils ákvað þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra að hækka framfærslulán til námsmanna á Íslandi um 20%, til þess að mæta hárri verðbólgu og atvinnuleysi. Þetta var að mörgu leyti skynsamleg og skiljanleg ákvörðun.

Sambærileg hækkun á framfærslulánum var aftur á móti einnig látin taka til þeirra sem voru við nám erlendis þó að verðbólga hafi víða verið hverfandi, þannig að mismunur á framfærslu heima og erlendis varð enn meiri en áður. Afleiðing þessa, auk annarra aðgerða þáverandi ríkisstjórnar, veikti stöðu lánasjóðsins, enda lánaði hann 500 milljónir umfram framfærsluþörf á hverju ári.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í síðustu viku skýrði Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, hvers vegna þetta var gert: „Ég vil aðeins minna hæstvirtan mennta- og menningarmálaráðherra á það hve veik krónan var. Hún féll, manstu, haustið 2008 og það hafði áhrif á kjör námsmanna erlendis.“

Þessi fullyrðing er röng. Framfærslulán til nema erlendis eru í erlendri mynt. Breytingar á gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum hafa því engin áhrif á það hvort nemendur geti framfleytt sér með framfærslulánum í erlendri mynt, og því stenst fullyrðingin ekki sem rök fyrir hækkun erlendra framfærslulána.

Mikilvægt að byggja á réttum upplýsingum

Með úthlutunarreglum fyrir næsta skólaár sem stjórn LÍN samþykkti með sjö atkvæðum af átta, var ákveðið að reyna að halda áfram að leiðrétta misræmið á milli framfærslulána eftir námslandi. Þess vegna voru framfærslulánin hér heima hækkuð og erlendis voru þau færð í átt að framfærsluviðmiðinu, hvort sem var til hækkunar eða lækkunar.

Þessu mótmælti Oddný, bæði í áðurnefndri ræðu á Alþingi en einnig í grein í Fréttablaðinu. Í greininni kom fram að markvisst væri unnið að því að fækka nemendum erlendis. Þessu til stuðnings var vitnað í ársskýrslu LÍN frá 2014 og fullyrt að nemendum erlendis hefði fækkað.

Þetta er einnig rangt. Í ársskýrslu LÍN kemur fram að lánþegum hjá sjóðnum hafi fækkað á Norðurlöndunum, en fjölgað víðast annars staðar. Í skýrslunni segir beinlínis að „námsmönnum erlendis hafi frekar fjölgað en fækkað sl. fimm ár.“ Fullyrðingin fær því ekki staðist miðað við það sem kemur fram í tilvitnaðri ársskýrslu LÍN.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×