Blikarnir Irma Gunnarsdóttir og Ingi Rúnar Kristinsson eru í forystu eftir fyrri daginn á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum sem fer fram á Selfossi og heldur áfram í dag.
Að loknum fyrri degi leiðir Irma Gunnarsdóttir úr Breiðabliki keppnina í sjöþraut kvenna með 2850 stig eða aðeins 8 stigum á undan Ásgerði Jönu Ágústsdóttur úr UFA sem er með 2842 stig.
Í karlaflokki er Ingi Rúnar Kristinsson úr Breiðabliki efstur með 3656 stig. Ísak Óli Traustason úr UMSS er annar með 3278 stig og er Ingi Rúnar því í fínum málum fyrir seinni daginn.
Í flokki 16 til 17 ára pilta er Styrmir Dan Steinunnarson úr HSK/UMF-Selfoss fyrstur eftir fyrri dag með 3103 stig.
Í flokki pilta 18 til 19 ára pilta leiðir Guðmundur Karl Úlfarsson úr Ármanni með 3380 stig, en á hæla honum er Gunnar Eyjólfsson úr UFA með 3334 stig.
Keppni stúlkna 16 til 17 ára leiðir Sara Hlín Jóhannsdóttir úr Breiðabliki með 2536 stig.
Ná Ingi Rúnar og Irma að halda út og tryggja sér titilinn?
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
