Körfubolti

Rodriguez tryggði Spáni brons

Anton Ingi Leifsson skrifar
Spánverjar fagna.
Spánverjar fagna. vísir/getty
Spánn vann sigur á Ástralíu með minnsta mun, 89-88, í leiknum um bronsið í körfubolta karla á Ólympíuleikunum í Ríó. Úrslitin réðust þegar fimm sekúndur voru eftir.

Úrslitaleikurinn er svo klukkan 18.45 þar sem Bandaríkin og Serbía mætast, en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2/HD.

Spánverjarnir voru átta stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 23-17, og héldu þeir áfram uppteknum hætti í öðrum leikhluta og voru komnir tólf stigum yfir, 40-28.

Þá tóku hins vegar Ástralarnir við sér; skoruðu tíu stig í röð og minnkuðu muninn í tvö stig fyrir hlé, en staðan í hálfleik 40-38, Spánverjum í vil.

Í síðari hálfleik hélt þessi sama spenna áfram og liðin skiptust á að halda forystunni út þriðja leikhlutann, en Spánverjarnir leiddu með þremur stigum eftir fyrsta leikhlutann, 67-64.

Sergio Rodriguez skoraði þriggja stiga körfu í upphafi fjórða og síðasta leikhluta og kom Spánverjum í 70-64. Þá komu hins vegar sex stig í röð frá Áströlum og staðan orðin jöfn 70-70 þegar átta mínútur voru til leiksloka.

Dramatíkin og spennan hélt áfram út allan leikinn, en að endingu höfðu Spánverjarnir betur, 89-88, eftir að Sergio Rodriguez setti niður tvö víti þegar fimm sekúndur voru eftir.

Pau Gasol skoraði 31 stig fyrir Spán, en Patty Mills gerði 30 stig fyrir Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×