Innlent

Stefnt að aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Geimfari á vegum ESA úti í geim.
Geimfari á vegum ESA úti í geim. Vísir/Getty
Alþingi samþykkti í dag þingsályktun um að utanríkisráðherra verði falið að sækja um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu. Þó verður farið í nánari skoðun á sskuldbindingum samfara aðild áður en sótt verður um.

Helgi Hrafn Gunnlaugsson, þingmaður Pírata, lagði þingsályktunartillöguna fram í sumar en Utanríkismálanefnd samþykkti í gær ályktun um að fela utanríkisráðherra að sækja um aðild Íslands að Geimvísindastofnunni að undangenginni nánari skoðun á skuldbindingum samfara aðild og var ályktunin einnig samþykkt á þingi í dag.

Í nefndaráliti Utanríkismálanefndar segir að nefndin telji að aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu yrði til að efla vísindastarf og hátækniiðnað á Íslandi.

Í umsögn dr. Kára Helgasonar og dr. Jóns Emils Guðmundssonar um þingsályktunartillöguna kemur fram að framlag Íslands yrði mun lægra í umsóknarferl­inu, eða fyrstu fimm til tíu árin, og fullyrt er að Ísland geti gerst aðili að Geimvísindastofnunni með hófstilltum framlögum fyrst um sinn og 80–200 milljónir á ári seinna meir ef óskað verður eftir fullri aðild.

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskóli í Reykjavík sendu allir umsögn og töldu allir skólarnir ástæðu til að sækja um aðild að Geimvísindastofnun Evrópu.

Fyrir um áratug var settur á fót starfshópur á vegum utanríkisráðuneytisins til að kanna fýsileika aðildar eða samstarfs Íslands við Geimvísindastofnun en sá starfshópur lauk ekki störfum.

Geimvísindastofnun Evrópu (ESA) var sett á laggirnar árið 1975 og eru aðildarríki hennar nú 22 talsins. Öll Norðurlöndin eru aðilar að ESA, að frátöldu Íslandi. Helstu verkefni stofnunarinnar lúta m.a. að framkvæmd og útfærslu langtímastefnu í geimvísindum og tillögum um sameiginleg markmið aðildarríkjanna í geimvísindum sem og annarra alþjóðastofnana.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×