Viðskipti innlent

Hagkerfið berskjaldað fyrir áföllum í ferðaþjónustu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Nýir útreikningar Seðlabanka Íslands sýna að Íslendingar myndu lenda í miklum efnahagssamdrætti sem myndi smita út frá sér inn í allt hagkerfið ef fækkun yrði í fjöldi ferðamanna hér á landi og fjöldinn yrði aftur svipaður og hann var á árinu 2012.

Í nýjasta hefti Fjármálastöðugleika, riti Seðlabanka Íslands, sem kom út í dag eru birtar niðurstöður álagsprófa þar sem fjallað er um hvaða áhrif samdráttur í ferðaþjónustu hefði á hagkerfið í heild. Niðurstöðurnar eru býsna sláandi. 

Hverjar yrðu afleiðingar þess að fjöldi ferðamanna myndi dragast saman um 40 prósent og fjöldinn yrði svipaður og 2012?

Samdráttur í útflutningi yrði um 10% í heild fyrsta árið.

Fjárfesting myndi dragast saman vegna minni umsvifa í hagkerfinu.

Atvinnuleysi myndi aukast og yrði 6,5% fyrsta árið og 7,9% annað árið. Einnig myndi hægjast á vexti kaupmáttar ráðstöfunartekna.

Verg landsframleiðsla myndi dragast saman um 3,9% fyrsta árið og um 1,3% á öðru ári.

Útlánatap bankanna myndi aukast í áfallinu í kjölfar samdráttar í hagkerfinu. 

Svo aðeins nokkur atriði úr niðurstöðunum séu nefnd. 

„Ljóst er að vöxtur ferðaþjónustunnar er stór liður í þeirri hagsæld sem við höfum fundið fyrir undanfarin ár. Sú sviðsmynd sem við teiknum upp um að ferðamenn verði jafnmargir og þeir voru 2012 sýnir að við myndum lenda í efnahagssamdrætti sem myndi smita út frá sér í allt hagkerfið og bankakerfið. Áhrifin voru nokkuð meiri en við áttum von á. Þetta undirstrikar hvað við erum orðin háð ferðaþjónustunni,“ segir Harpa Jónsdóttir settur framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×