Þrjátíu og einn þingmaður situr nú í stjórnarandstöðu en þrjátíu og tveir þingmenn fylla stjórnarflokkana þrjá sem tóku við ríkisstjórn landsins á Bessastöðum í gær. Stjórnarmeirihlutinn þarf því að reiða sig á atkvæði hvers einasta þingmann stjórnarflokkanna þegar kemur að afgreiðslu mála á Alþingi til að ná málum í gegn, að því gefnu að stjórnarandstöðuflokkarnir séu einnig einhuga í atkvæðagreiðslum á þinginu.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði margsinnis á þeim sex vikum sem stjórnarmyndunarviðræður stóðu yfir að hann teldi meirihluta Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar helst til of tæpan.

Heldur þú að þessi naumi meirihluti muni líka þýða að það verði vandað meira til verka við framlagningu frumvarpa þannig að þau komi kannski þroskaðri inn í þingið?
„Ég vil nú ekki segja að menn hafi kastað til hendinni en já við munum leggja áherslu á góð vinnubrögð. Auðvitað hefur það áhrif á hvernig menn skipuleggja þingstörfin ef unnið er með tæpan meirihluta. Og já, kannski munum við í nefndunum þurfa að gera viðbótar málamiðlanir. Það er bara allt í lagi. Það er staða sem við getum vel unnið með,“ segir forsætisráðherrann nýi. Þegar á öllu sé á botninn hvolft sé meirihluti meirihluti.
Bjarni segir að stóru málin sem afgreiða þurfi á vorþinginu sem hefst hinn 24. janúar verði að koma saman fjármálastefnu til næstu fimm ára sem og fjármálaáætlun sem verði grunnurinn að fjárlögum næsta árs. En í þessum tveimur þingmálum mun efnahagsstefna nýrrar ríkisstjórnar koma fram.
Þá hefur ný ríkisstjórn ákveðið að færa málefni Seðlabanka Íslands frá fjármálaráðuneytinu til forsætisráðuneytisins og um leið flytjast málefni Hagstofunnar til fjármálaráðuneytisins.
„Við getum vonandi sem fyrst komið endurskoðun á peningastefnunni í farveg og í góðri sátt við stjórnarandstöðuna. Þetta eru nokkur mál sem ég get nefnt til að byrja með,” sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á Bessastöðum í gær.