Aníta hljóp í öðrum riðli og kom í mark á 2:02,82 mínútum en hún var sú eina í morgun sem hljóp undir tveimur mínútum og þremur sekúndum.
Hlaupið var virkilega vel útfært en hún tók forskotið á fjórða og síðasta hringnum og stakk keppinauta sína af. Aníta átti þriðja besta tíma allra keppenda fyrir mótið.
Evrópumeistarinn frá því 2015, Selina Büchel frá Sviss, hljóp í fjórða riðli og kom í mark á 2:03,11 mínútum en hún á næstbesta tímann á eftir Anítu eftir undanrásirnar. Hún komst vitaskuld í undanúrslitin en tvær efstu úr hverjum riðli komust áfram auk þeirra fjögurra með bestu tímana á eftir þeim.
Óvænt úrslit urðu strax í fyrsta riðli þar sem Olga Lyakova frá Úkraínu komst ekki áfram en hún hljóp skelfilega á 2:06,33 mínútum og komst ekki áfram. Sú úkraínska átti þriðja besta tíma keppenda fyrir mótið en er úr leik. Aníta á nú annan besta tímann á eftir Evrópumeistaranum Büchel.
Undanúrslitahlaupið fer fram á morgun og úrslitahlaupið á sunnudaginn en miðað við byrjunina er Aníta líkleg til afreka á mótinu. Hún hafnaði í fimmta sæti á EM innanhúss fyrir tveimur árum síðan.
Vísir fylgdist með hlaupinu í morgun í beinni textalýsingu sem má sjá hér að neðan.