Usain Bolt bar nauman sigur úr býtum í 100 m hlaupi á Golden Spike-móti í Ostrava í Tékklandi í gær en hann hljóp á 10,06 sekúndum.
Hann var aðeins þremur hundraðshlutum úr sekúndu á undan Yunier Perez frá Kúbu en þetta er annað hlaupið í röð þar sem að Bolt nær ekki að vera undir tíu sekúndum.
Er það í fyrsta sinn á ferli Bolt sem að það gerist.
„Ég er ekki ánægður en ég er að komast af stað með hlaupin mín og á enn eftir að æfa nokkuð,“ sagði Bolt eftir hlaupið í gær.
„Þetta verður allt saman í góðu lagi hjá mér. Ég þarf að fara í skoðun hjá lækninum mínum og fara á æfingar hjá þjálfaranum mínum, þannig að ég hef engar áhyggjur.“
Bolt hefur áður sagt að þetta sé hans síðasta keppnistímabil og að hann muni hætta eftir HM í London í ágúst. Á blaðamannafundi fyrir mótið í Ostrava gaf hann þó til kynna að hann myndi mögulega keppa áfram.
„Við höfum ekki endanlega gert upp hug okkar um hvað við ætlum að gera,“ sagði hann þá.
