Sport

Magnaður Farah vann enn og aftur gull

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mo Farah fagnar er hann kemur í mark í kvöld.
Mo Farah fagnar er hann kemur í mark í kvöld. Vísir/AFP
Mo Farah tryggði sér í kvöld sinn þriðja heimsmeistaratitil í röð í 10 þúsund metra hlaupi á HM í frjálsum. Hlaupið fór fram á Ólympíuleikvanginum í Lundúnum, þar sem Farah vann frægt Ólympíugull í greininni fyrir fimm árum síðan.

Farah naut gríðarlega mikils stuðnings á heimavelli en fór sér hægt í upphafi. Hann hélt sér um miðjan hóp framan af hlaupi en svo virtist sem að hlauparar frá Kenýu og Úganda höfðu samráð um að halda uppi hraða í hlaupinu í þeirri von um að draga úr endaspretti Farah.

Hann tók forystu þegar tveir hringir voru eftir en þrátt fyrir að keppinautar hans hafi náð að hanga í honum stakk hann einfaldlega af á síðustu 150 metrunum og bar sigur úr býtum á 26:49,51 mínútum.

Joshua Cheptegei frá Úganda varð annar á 26:49,94 mínútum en Paul Tanui, sem lagði hvað harðast að Farah á lokasprettinum, vann brons á 26:50,60 mínútum.

Heimsmetið í greininni er 26:17,53 mínútur en Farah var þremur sekúndum frá sínum besta tíma á ferlinum.

Farah hefur verið nánast ósigrandi á stórmótum síðustu árin en hann vann gull í bæði fimm og tíu þúsund metra hlaupi á leikunum í Lundúnum og svo aftur í Ríó í fyrra.

Hann vann einnig báðar greinar á HM í Moskvu fyrir fjórum árum sem og í Peking fyrir tveimur árum. Hann vann sitt fyrsta heimsmeistaratitil er hann fagnaði sigri í fimm þúsund metra hlaupi á HM í Suður-Kóreu árið 2011 en hann varð að sætta sig þá við silfur í tíu þúsund metra hlaupinu.

Farah er sigursælasti frjálsíþróttamaður Breta frá upphafi en gullið sem hann vann í kvöld var tíunda gull hans á annað hvort heimsmeistaramóti eða Ólympíuleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×