Vésteinn Hafsteinsson er einn fjögurra sem koma til greina sem þjálfari ársins í sænskum íþróttum árið 2017.
Vésteinn er þjálfari kringlukastarans Daniels Ståhl sem vann til silfurverðlauna á HM í London í sumar. Ståhl kastaði kringlunni 69,19 metra.
Vésteinn er tilnefndur sem þjálfari ársins ásamt Graham Potter, Håkan Carlsson og Rikard Grönborg.
Potter er þjálfari Östersunds sem er bikarmeistari í fótbolta og hefur gert góða hluti í Evrópudeildinni. Carlsson er þjálfari í rathlaupi og Grönborg stýrir sænska karlalandsliðinu í íshokkí.
Lærisveinn Vésteins, áðurnefndur Daniel Ståhl, er einnig tilnefndur sem íþróttamaður ársins í karlaflokki.
Vésteinn tilnefndur sem þjálfari ársins
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
