Handbolti

Vignir: Gummi hringdi í mig þegar ég var á fæðingardeildinni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Vignir í landsleik.
Vignir í landsleik. vísir/afp
Reynsluboltinn Vignir Svavarsson er mættur aftur í íslenska landsliðið. Það er rúmt ár síðan hann var síðast í liðinu og hann hefur misst af síðustu tveimur stórmótum.

„Gummi heyrði í mér þegar ég var á fæðingardeildinni um daginn. Þá sagðist ég vera klár ef hann gæti notað mig eitthvað,“ segir Vignir en hann varð faðir í annað sinn fyrir um þrem vikum síðan.

Vignir viðurkennir að hann hafi notið þess að vera í smá fríi frá landsliðinu.

„Saknaði ég þess? Já og nei. Ég átti alltaf mjög góð samskipti við Geir [Sveinsson, fyrrum landsliðsþjálfara] en ég gaf samt ekki kost á mér fyrir EM þegar hann óskaði eftir mínum kröftum. Ég vildi vera með fjölskyldunni,“ segir Vignir en eiginkona hans var þá langt gengin með barn þeirra.

„Það var rosalega kærkomið að vera í fríi. Það var spes tilfinning að eiga frí í janúar og það með jólafríi. Það var ljúf tilfinning. Auðvitað kom svo tími er mótið byrjaði að maður saknaði þess að vera ekki með. Ég naut mín samt í fríinu og horfði ekki mikið á mótið. Ég nennti ekki að horfa og það var drullufínt að vera í frii frá handbolta. Ég sá bara hálfleik hjá Íslandi og með öðru auganu á úrslitahelgina. Ég kom þeim mun ferskari úr fríinu.“

Vignir verður 38 ára gamall næsta sumar og hefur ekki enn ákveðið hvenær hann hendir skónum upp í hillu.

„Ég hef ekki tekið eina einustu ákvörðun með þetta. Ég er ekki skipulagðasti maður í heimi. Ég sagði við Gumma að ég væri klár núna og svo lengi sem ég get eitthvað þá væntanlega í sumar líka. Svo kemur frí og svo tökum við stöðuna aftur næsta haust.“


Tengdar fréttir

Vantar sjö leikmenn úr EM-hópnum

Það eru tæpir tveir mánuðir síðan íslenska landsliðið var á EM í Króatíu og er mikil breyting á landsliðshópnum á þessum stutta tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×