Skoðun

Að senda náttúrunni reikning fyrir skaðanum

Bubbi Morthens skrifar

Lúsafaraldur í fiskeldi er það versta sem hugsast getur fyrir alla á þeim vettvangi, þig, mig og þá. Stofnunin sem fer með eftirlitið með laxeldisfyrirtækjum, Matvælastofnun, notar orðið „meðhöndlun“ þegar hún gefur laxeldisfyrirtækjum hér á landi heimild til að nota eitur til að stöðva það sem verður ekki stöðvað. Eina leiðin til þess að meðhöndla laxalús í eldi er að nota eitur og það helling af því. Hvert halda menn svo að þetta eitur berist? Svarið er: Í allt lífríkið. Svo einfalt er það.



Hvað sögðu talsmenn Norðmanna hér á landi? Að það væri engin hætta á að laxalús yrði til vandræða en annað hefur komið í ljós. Nú nýlega fór fram uppboð á laxeldiskvóta í Noregi. Þar fór laxeldisleyfið fyrir tonnið á tæpar 2,6 miljónir króna. Samkvæmt því kostar þá leyfi fyrir 6.000 tonna laxeldi fyrir Laxa ehf. í Reyðarfirði 15,4 miljarða. Það sama á við um önnur fyrirtæki í laxeldi hér á landi. Út af hverju halda menn að Norðmenn hafi komið hingað og séu að gleypa firðina og hafi alls konar fólk á launum til þess að verja þessa mengandi stóriðju? Jú, hér sjá þeir gróða og marklaust eftirlit og ráðamenn sem sjá atkvæði í því að vera ekki með neitt vesen. Það hefur verið sannað að laxeldi hefur vond og óafturkræf áhrif á villta laxastofna.



Laxeldi í opnum kvíum er skaðlegt lífríkinu við strendur Íslands. Laxeldi á landi eða í lokuðum kvíum er eina umhverfisvæna leiðin til þess að vernda lífríkið við strendur landsins en það kostar peninga og Norðmennirnir sem hingað eru komnir og talsmenn þeirra hafa engan áhuga á því að borga það gjald. Þeir hafa áhuga á að ryksuga upp gullið úr lífríkinu við strendur Íslands og senda náttúrunni reikninginn fyrir skaðanum.



Höfundur er tónlistarmaður




Skoðun

Sjá meira


×