Sjá einnig: Umhverfisstofnun fylgist náið með eiturefnamálinu
Í frétt bandarísku umhverfisverndarsamtakanna EWG sem birtist í vikunni er skýrt frá því að virka efnið í illgresiseyðinum Roundup, glýfosat (glyphosate), finnist í mörgum þekktum matvörum, einkum í morgunkorni og fást einhverjar tegundir þess á Íslandi. Þá var einnig greint frá málinu í breska dagblaðinu The Guardian en efnið fannst í vörum frá matvælaframleiðendunum Quaker, Kellogg’s og General Mills, sem framleiðir Cheerios.
Yfir leyfilegum mörkum í 0,28% tilfella
Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að Matvælaöryggisstofnun Evrópu, EFSA, safni niðurstöðum úr glýfosfatmælingum aðildarríkja Evrópusambandsins á hverju ári. Nýjustu niðurstöður eru frá árinu 2016 þar sem tekin voru 6761 sýni frá 26 löndum í Evrópu.„Glýfosat greindist yfir leyfilegum mörkum í 19 sýnum eða 0,28% sýnanna. Það greindist ekki glýfosat í 96,4% sýnanna, þ.e.a.s. glýfosat var ekki til staðar eða í svo litlum mæli að það var ekki hægt að magngreina það,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.
Miðað við þessar niðurstöður telur EFSA að það magn sem neytendur innbyrða með matvælum á markaði sé ekki skaðlegt heilsu manna.
Ekkert glýfosat í vörum á Íslandi árið 2016
Þá gefi rannsókn EWG, þar sem tekin voru sýni úr kornvörum, ekki tilefni til að vara við neyslu á vörunum, hvorki fyrir fullorðna né börn, eða innkalla þær af markaði.Einnig er bent á að glýfósat er leyft til notkunar á Íslandi en Umhverfisstofnun veitir markaðsleyfi og fer með eftirlit með innfutningi þess. Árið 2016 tók Matvælastofnun þrjú sýni af innlendum kornvörum til greiningar á glýfósati. Ekkert glýfósat fannst í vörunum.
Efnið glýfosfat er virka efnið í arfaeyðinum Roundup, sem er notaður við ræktun á erfðabreyttum korntegundum og fæst hér á landi. Landbúnaðarvörufyrirtækið Monsanto í Bandaríkjunum var fyrir nokkru dæmt til að greiða manni, sem er að deyja úr krabbameini, tæplega 32 milljarða króna í skaðabætur. Maðurinn hélt því fram að krabbamein hans mætti rekja að einhverju leyti til notkunar hans á arfaeyðinum.