Lukas Podolski hefur nú tekið að sér að vera sendiherra HM í handbolta sem fer fram í Þýskalandi og Danmörku í byrjun næsta árs.
Lukas Podolski er annar sendiherra keppninnar á eftir gamla þýska landsliðsþjálfaranum Heiner Brand.
Lukas Podolski mun vera sérstakur sendiherra milliriðilsins í Köln en hann hóf atvinnumannaferil sinn með Köln og spilaði alls 169 leiki fyrir félagið í efstu deild í Þýskalandi.
Herzlich Willkommen an Bord, @Podolski10!Eduard Bopp #WMBotschafter#Köln#handball19#Poldi#LukasPodolskipic.twitter.com/CvPEuiPiWn
— DHB_Nationalteams (@DHB_Teams) August 17, 2018
„Köln er vitlaus í íþróttir og þá skiptir það ekki máli hvort að það séu leikir hjá 1. FC Köln eða alþjóðlegir stórleikir í LANXESS arena. Andrúmsloftið er alltaf stórkostlegt og áhorfendurnir þekkja leikinn og eru sanngjarnir. Ég tek mínum skyldum fagnandi sem sendiherra HM í handbolta,“ sagði Lukas Podolski.
Lukas Podolski er einna þekktastur fyrir tíma sinn hjá Arsenal en hann spilaði alls 130 landsleiki fyrir Þýskaland og skoraði í þeim 49 mörk. Aðeins tveir leikmenn hafa skorað fleiri mörk fyrir þýska landsliðið, Miroslav Klose og Gerd Müller.
„Við erum svo ánægðir með að geta kynnt Lukas Podolski sem nýjan sendiherra HM. Hann er ekki aðeins vinsæll í Þýskalandi, enda opinn og skemmtilegur, heldur einnig er hann mikill baráttumaður fyrir Kölnarborg. Við hefðum ekki getað fundið betri sendiherra,“ sagði Mark Schober, stjórnarformaður þýska handboltasambandsins.
Lukas Podolski spilar nú með japanska félaginu Vissel Kobe og er þar meðal annars liðsfélagi Spánverjans Andrés Iniesta.
Dinner of champions! @andresiniesta8@hmikitani pic.twitter.com/pGB3TDH65J
— Lukas-Podolski.com (@Podolski10) August 15, 2018
HM í handbolta fer fram frá 10. til 27. janúar og er íslenska landsliðið meðal keppenda. Ísland leikur sína leiki í riðlakeppninni í München en komist íslensku strákarnir upp úr sínum riðli þá munu þeir spila í Lanxess Arena í milliriðlinum. Þeir leikir fara fram frá 19. til 23. janúar.