Þó svo vissulega hafi kvarnast myndarlega úr helmingaskiptakerfinu (kaupfélögin fóru jú flest á hausinn og kolkrabbinn liðaðist í sundur) þá virðist þessi ríkisforsjárhugsun enn lifa góðu lífi í huga fjölda stjórnmálamanna. Hagsmunir almennings, að búa við sem mesta samkeppni og lægst vöruverð á sem flestum sviðum, víkja allt of oft fyrir þröngum sérhagsmunum sem núverandi stjórnarflokkar virðast einhuga um að standa vörð um.
Tökum nokkur dæmi. Landbúnaður er enn að stórum hluta undanþeginn samkeppnislögum og við starfrækjum enn opinbera verðlagsnefnd um verðlagningu búvara. Leigubílaþjónusta er enn bundin á klafa fákeppni með stuðningi stjórnvalda og hafa t.d. nær engin ný leyfi til leigubílaaksturs verið gefin út á undanförnum 12 árum þrátt fyrir að landsmönnum hafi fjölgað um 50 þúsund og ferðamönnum um nærri tvær milljónir á sama tíma. Póstdreifing er enn bundin við einokun. Tveir af þremur stærstu viðskiptabönkum landsins eru í ríkiseigu. Starfræksla ríkisfjölmiðils fyrir skattfé er að ganga af einkareknum fjölmiðlum dauðum og ríkið er enn með einokun á sölu og dreifingu áfengis og tóbaks. Fjölmörg önnur dæmi mætti nefna.
Aukin samkeppni vegna EES
Á undanförnum 25 árum höfum við vissulega stigið fjölmörg jákvæð skref til aukinnar samkeppni á markaði. Við höfum innleitt hér nútímasamkeppnislöggjöf og sett opinberum rekstri ýmsar skorður í samkeppni við aðra aðila á markaði. Við höfum aflétt ýmsum höftum og hömlum og innleitt samkeppni á fjarskiptamarkaði, raforkumarkaði, stóreflt almenna neytendavernd og svo mætti áfram telja. Allt er þetta af hinu góða en fæst getum við þakkað íslenskum stjórnmálamönnum. Flest þessara atriða sem að framan eru nefnd hafa nefnilega verið fylgifiskar EES-samningsins.

Meðfylgjandi mynd sýnir hins vegar kostnað neytenda af ofurtrú stjórnmálamanna á einokunarverslun. Flestar þær vörutegundir sem bundnar eru umtalsverðum samkeppnishindrunum hafa hækkað mun meira en þær vörur sem seldar eru óhindrað á markaði. Fátt hefur t.d. hækkað meira á undanförnum tveimur áratugum en póstþjónusta, akstur leigubíla, heilbrigðisþjónusta eða opinber þjónusta.
Þrátt fyrir þetta virðist slagorð ríkisstjórnarflokkanna og raunar fleiri vera meiri einokun takk! Ég segi nei takk!