Viðskipti innlent

Sveinn hættir sem forstjóri Matís eftir trúnaðarbrest

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sveinn Margeirsson er hættur sem forstjóri Matís.
Sveinn Margeirsson er hættur sem forstjóri Matís. Matís
Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, hefur látið af störfum eftir átta ára starf. Þetta kemur fram á heimasíðu fyrirtækisins. Stjórn Matís þakkar Sveini fyrir hans framlag og segir að undir hans stjórn og með aðkomu öflugs starfsfólks, hugviti þeirra og þekkingu, hafi Matís vaxið.

Sjöfn Sigurgísladóttir, formaður stjórnar Matís, segir í samtali við Vísi að ástæðan sé trúnaðarbrestur milli stjórnar og forstjóra. Stjórnin hafi komist að þessari niðurstöðu í gær og miðvikudagurinn verið síðasti starfsdagur Sveins. Gerður var starfslokasamningur við Svein.

Oddur Már Gunnarsson sem starfað hefur sem skrifstofustjóri hjá Matís og verið starfsmaður til lengri tíma tekur við starfi forstjóra til bráðabirgða að sögn Sjafnar.

Boðað var til starfsmannafundar í dag þar sem starfsfólki Matís var tilkynnt um uppsögn Sveins. Starfsemi haldi óbreytt áfram að sögn Sjafnar og engar frekari breytingar boðaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×