Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist í raun hafa rekið James Mattis, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Mattis sagði að af sér í síðasta mánuði vegna þess hann deildi ekki sömu heimsmynd og forsetinn.
„Ég óska honum velfarnaðar en eins og þið vitið þá rak Obama forseti hann og ég gerði það í raun líka,“ sagði Trump í Hvíta húsinu í dag.
Barack Obama, forveri Trump í starfi, rak Mattis úr yfirstjórn bandaríska hersins árið 2013 eftir að þeir urðu ósammála um hvernig ætti að taka á málefnum Írans.
Talið er að Mattis hafi hætt í ríkisstjórn Trump vegna ósættis við ákvörðun forsetans um að draga herlið Bandaríkjanna til baka frá Sýrlandi,ákvörðun sem kom mörgum í opna skjöldu.
Mattis átti reyndar ekki að láta af störfum fyrr en eftir tvo mánuði en Trump ákvað að Mattis skyldi hverfa úr embætti á nýársdag.
„Hvað hefur hann gert fyrir mig. Hvernig stóð hann sig í Afganistan? Ekki svo vel, ekki svo vel. Ég er ekki ánægður með hvernig hann stóð sig í Afganistan,“ sagði Trump.

