Haraldur Baldursson flugstjóri og Kári Valsson flugmaður flugu þotunni heim frá Seattle og voru 7 tíma og 16 mínútur á leiðinni, að sögn Ásdísar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair.
Koma þotunnar markar nýjan áfanga í mestu flugvélakaupum Íslandssögunnar, kaupum Icelandair á alls sextán þotum af gerðinni Boeing 737 MAX. Þar af eru níu vélar af MAX 8-gerð, sem verða með 160 sætum, og sjö vélar af MAX 9-gerð, sem verða með 178 sætum, en 2,64 metrum munar á lengd vélanna.

Icelandair tekur alls sex nýjar MAX-vélar í notkun núna á vormánuðum; þrjár MAX 8 og þrjár MAX 9. Von eru á næstu vél innan viku og hinar fjórar koma síðan hratt inn, og sú síðasta í kringum mánaðamótin mars-apríl. Stefnt er að því að þær verði allar komnar í áætlunarflug í maímánuði, að sögn Hauks Reynissonar, flugrekstrarstjóra Icelandair.
Hér má sjá myndband sem tekið var þegar MAX 9 þotan var dregin inn í skýli Icelandair í dag: