Það er þegar orðið ljóst að LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers verða ekki með í úrslitakeppninni í ár en lítið hefur gengið hjá liðinu eftir að James meiddist og forráðamenn liðsins reyndu að skipta út hálfu liðinu fyrir stórstjörnuna Anthony Davis.
Bandarískir fjölmiðlamenn hafa verið að velta fyrir sér hvort tími LeBron James sem besta körfuboltamanns heims sé á enda og hér fyrir neðan má sjá umræðu um framtíðina hjá James í þættinum First Things First á Fox Sports.
Post rookie year, the 3 worst years of LeBron's career: 1st year in Miami, 1st year back in Cleveland, 1st year with the Lakers.
via @getnickwrightpic.twitter.com/2yppcyIUar
— FOX Sports (@FOXSports) March 28, 2019
Hér eru spekingarnir að velta fyrir sér hvernig lengri hvíld fari í hinn ótrúlega skrokk á LeBron James. James er vanalega að klára tímabilið í kringum 20. júní en núna endar það um miðjan apríl í síðasta lagi eða tveimur mánuðum fyrr.
Nick Wright, annar umsjónarmanna First Things First, bendir þó á eina staðreynd um hvað verstu tímabil hjá LeBron eigi sameiginlegt en hann telur þá ekki með nýliðaárið hans.
Það hefur nefnilega ekki gengið alltof vel á fyrsta árinu, hvort sem það var þegar hann fór í Miami Heat, kom til baka í Cleveland Cavaliers eða samdi við Los Angeles Lakers.
LeBron James vann aftur á móti titil á öðru ári sínu hjá bæði Miami Heat (2012) og Cleveland Cavaliers (2016).
Takist Lakers að fá öfluga leikmenn í sumar þá ætti liði að mæta mun sterkara til leiks á næsta tímabili og þá með LeBron James líka úthvíldan eftir langt og gott sumarfrí.
LeBron James hefur ekki tekist að halda liði Los Angeles Lakers á floti í vetur en það er ekki eins og hann sé að skila einhverjum rusltölum því kappinn er með 27,4 stig, 8,6 fráköst og 8,2 stoðsendingar að meðaltali í leik og er að hitta úr 51 prósent skota sinna utan af velli.