Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri bílaframleiðandans Nissan, hefur skráð sig til leiks á samfélagsmiðlinum Twitter. Hann hefur boðað til blaðamannafundar og segist forstjórinn fyrrverandi vera að undirbúa sig undir það að segja sannleikann um hvað sé „að gerast“.
Ghosn var handtekinn á síðasta ári og sakaðir um að hafa erfisbundið vantalið fram tekjur sínar til eftirlitsaðila og að hann hafi misnotað eignir fyrirtækisins til eigin hagsmuna. Eru meint brot hans afar umfangsmikil að því er greint hefur verið frá í japönskum fjölmiðlum.
Sat hann í fangelsi í um þrjá mánuði en var látinn laus gegn tryggingu í síðasta mánuði. Þurfti hann að reiða fram um einn milljarð jena, rétt rúmlega milljarð króna.
Reikningur Ghosn er með hinu svokallaða „bláa merki“ sem þýðir að Twitter hefur sannreynt að Ghosn sjálfur, eða aðili á vegum hans, standi að baki reikningnum. Þá hefur talsmaður hans staðfest í samtali við New York Times að um forstjórann fyrrverandi sé að ræða.
„Ég er að undirbúa mig undir það að segja sannleikann um hvað er að gerast. Blaðamannafundur á fimmtudaginn, 11. apríl,“ skrifar Ghosn á Twitter.
Ghosn heldur því fram að hann sé saklaus af ákærum í málinu og að það sé runnið undan rifjum annarra stjórnarmanna og stjórnenda Nissan, sem hafi óttast að fyrirtækið væri orðið of háð Renault.