Umhverfisráðuneytið segir pass
Tilgangur hvíldartíma, eftir hverja 23 til 25 mánaða eldislotu er annars vegar að hvíla nálægan botn fyrir úrgangsmengum svo sem saur, fóðurleyfum, dauðum eldisfiski og eftir atvikum skordýraeitri og lyfjum sem notað hefur verið gegn laxalús á eldistímanum, og hins vegar til að leitast við að hreinsa svæðið af laxalús.Landeigendur og hagsmunaaðilar í nágrenni við kvíasvæðið tilkynntu starfsleyfisbrotið til Umhverfisstofnunar (UST) í lok júni 2018 og í framhaldinu boðaði stofnunin að sjókvíaeldisfyrirtækið yrði áminnt. Í lok júlí barst landeigendum hins vegar það svar UST að Arnarlax hefði sent undanþágubeiðni til Umhverfisráðuneytisins þar sem óskað var eftir áframhaldandi heimild til starfsleyfisbrotsins. Þar með gæti UST ekki sinnt lögbundinn skyldu sinni til að stöðva starfsemina. Síðan hefur málið verið strand í ráðuneytinu. Fyrir liggur að UST leggst gegn undanþágu. Einu svör Umhverfisráðuneytisins vegna málsins eru að benda kærendum á að þeir geti kært aðgerðaleysi UST og Umhverfisráðuneytisins til Úrskurðarnefnar auðlinda- og umhverfismála.
Í þessu ferli öllu skýtur mjög skökku við að brotin þrífast í skjóli aðgerðaleysis ráðuneytis sem er undir stjórn VG.

Ábyrgð VG
Í næsta nágrenni við kvíasvæðið er eitt af stærri æðarvörpum Vestfjarða og þrjár litlar ár sem hýsa náttúrulega lax- og sjóbirtingsstofna. Nú þegar er búið að eitra tvisvar á svæðinu með lúsaeitri sem er hellt beint í sjóinn í kvíunum en eitrið leysir upp skel laxalúsa og annarra skeldýra með ófyrirséðum afleiðingum fyrir nálægt lífríki, samanber fæðu æðarfugla og annarra sjófugla. Að óbreyttu er von á enn meiri eiturefnanotkun þar sem laxalús hefur verið árlega yfir viðmiðunarmörkum á eldissvæðinu.Skeytingarleysi Umhverfisráðuneytisins í þessu máli er í hróplegri andstöðu við yfirlýst stefnumál VG eins og þau eru til dæmis sett fram á heimasíðu flokksins:
„Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda. Náttúran á að njóta vafans.“
„Koma þarf í veg fyrir innflutning og dreifingu á framandi ágengum tegundum og vakta útbreiðslu þeirra.“
„Styrkja þarf löggjöf um vernd og friðun villtra dýra.“
Á heimasíðu VG er einnig að finna eftirfarandi stöðugreiningu:
„Vistkerfi jarðar stendur ógn af markaðshagkerfinu. Gróðasjónarmið hafa ráðið för í umgengni við náttúruna.“
Svo virðist sem VG hafi gefist upp á sinni upphaflegu vegferð.
Víðir Hólm Guðbjartsson, sauðfjár- og æðarbóndi, Grænuhlíð í Bakkadal
Hilmar Einarsson, landeigandi, Hringsdal
Pétur Arason, landeigandi, Hóli í Bakkadal