Í spilaranum hér í fréttinni má sjá myndskeið af skipverjum fiskibáts að störfum og augljóst að verið er að henda fiski frá borði. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni um málið segir að skipstjórar fiskibátanna eigi yfir höfði sér kæru vegna athæfisins.
Landhelgisgæslan, sem sinnir reglulega löggæslu á hafi, náði atvikinu á öflugan myndavélabúnað sinn sem er í flugvélinni TF-SIF. Með honum hefur áhöfnin aukna getu til að fylgjast með fiskveiðum úr töluverðri hæð.

Georg segir Fiskistofu og Gæsluna hafa aukið samstarf sitt í von um að geta fylgst betur með veiðum í kringum landið. Samkvæmt lögum er það hlutverk Landhelgisgæslunnar að sinna löggæslu og eftirliti á hafsvæðinu kringum Ísland.
„Við gerum það með flugvél og dróna, með varðskipum og bátum. Þannig aðþetta er eitt af okkar stóru verkefnum,“ segir Georg.

Eyþór Björnsson forstjóri Fiskistofu segir málið í skoðun, kanna þurfi hvort hægt sé að hefja stjórnsýslumál á hendur þessum aðilum byggt á myndbandinu.
„Það er mjög erfitt að sanna brottkast, já. Við verðum að vera með mjög góð og áreiðanleg gögn til að geta byggt svoleiðis mál á. Já, þau eru flókin,“ segir Eyþór.