Þetta kemur fram í tölvupósti sem Meredith Whittaker og Claire Stapleton sendu innan fyrirtækisins á dögunum.Fjallað er um efni tölvupóstsins á vef Wired.
Í tölvupóstinum segir Whittaker að hún hafi fengið þau skilaboð nýverið að hafi hún áhuga á því að starfa áfram hjá Google þyrfti starf hennar að „að taka talsverðum breytingum“. Stapleton greinir frá því að hún hafi mátt þola stöðulækkun. Eftir að hafa kvartað til mannauðsdeildar versnaði ástandið.
Eftir kvörtunina segir hún hins vegar að yfirmaður hennar hafi hunsað hana, verkefni hennar hafi verið færð til annarra starfsmanna og að henni hafi verið sagt að taka veikindaleyfi, jafn vel þó hún væri ekki veik.
Réði hún lögfræðing vegna málsins sem leiddi til þess að stöðulækkun hennar var dregin til baka. Þó segir hún að viðmót yfirmanna í hennar garð sé enn þá óviðunandi.

Að því er kom fram í fréttatilkynningu aðstandenda mótmælanna var kornið sem fyllti mælinn umfjöllun The New York Times um að æðstu stjórnendur fyrirtækisins hafi hylmt yfir brot Andys Rubin, mannsins á bak við Android stýrikerfið sem er sakaður um að þvinga konu til munnmaka árið 2013.
Fékk hann 90 milljónir dala þegar hann var rekinn frá Google árið 2014. Þrátt fyrir að honum hafi verið sparkað vegna ásakana um kynferðisbrot er hann sagður hafa verið „kvaddur sem hetja.“
Í kjölfar mótmælanna hét Sundar Pichai, forstjóri Google, því að úrbætur yrðu gerðar á stefnu fyrirtækisins gagnvart ásökunum um kynferðislega áreitni á vinnustaðnum.
Talsmaður Google segir að allar hefndaraðgerðir á borð við þær sem Whittaker og Stapleton lýsa í tölvupóstinum séu ekki heimilar. Það komi reglulega fyrir að störf starfsmanna séu endurskipulögð og að fyrirtækið fá ekki séð að um hefndaraðgerðir af hálfu Google hafi verið að ræða í þessu tilviki.
Tölvupóst Whittaker og Stapleton má lesa hér.