Innlent

Gangbrautir upplýstar eins og leiksvið

Ari Brynjólfsson skrifar
Ólafur Kr. Guðmundsson.
Ólafur Kr. Guðmundsson. fréttablaðið/eyþór
„Við viljum prófa næsta vetur að taka í notkun nýjustu tækni í gangbrautum, svokallaðar tölvuvæddar gangbrautir,“ segir Ólafur Kr. Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðis flokksins hefur lagt fram tillögu fyrir borgarstjórnarfund á morgun um að fara í tilraunaverkefni til að auka öryggi á gangbrautum.

Ef tillagan verður samþykkt verða fimm gangbrautir valdar þar sem komið verður fyrir búnaði sem skynjar þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikir þá á LED-götulýsingu.

Verkefnið hefur verið Ólafi hugleikið í nokkurn tíma, setur hann þetta í samhengi við snjallvæðingu Reykjavíkurborgar. Verkefnið kemur til með að kosta 10 milljónir króna, eða tvær milljónir á hverja gangbraut. Meginmarkmiðið er að auka öryggi.

„Þegar þú ert að nálgast gangbrautarkantinn, þá kviknar lýsing, upplýst gangbrautarmerki og blikkandi ljós. Þá verða gangandi vegfarendur upplýstir eins og á leiksviði. Þetta er hugsað fyrir myrkur, sérstaklega í skammdeginu, þá er öruggt að bílstjórar sjái vegfarendurna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×