Icelandair greip til þess ráðs að fljúga með farþega á milli Keflavíkur og Manchester í gær og í dag á Bombardier Q400 flugvél. Er það gert til að mæta þeim vanda sem skapast hefur vegna kyrrsetningar Boeing MAX-vélanna en Icelandair hefur einnig nýtt þessar vélar til að fljúga á milli Keflavíkur og Bergen í Noregi í maí.
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir Icelandair ekki hafa skipulagt fleiri ferðir með þessum vélum eins og er.
„Það kemur hins vegar alveg til greina að nýta þær frekar ef á þarf að halda,“ segir Ásdís.
Hún segir enn óljóst hvenær kyrrsetningu MAX-vélanna verður aflétt. Forsvarsmenn flugmálayfirvalda víða um heim munu koma saman í Texas á morgun og ræða málefni Boeing.
Rætt var við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, um flugrekstur flugfélagsins fyrr í mánuðinum í kvöldfréttum Stöðvar 2 en þar sagði hann að ekki væru áform um að nýta Bombardier flugvélar til sóknar á nýja markaði erlendis.
Icelandair flutti farþega með Bombardier til Manchester
