Farþegafjöldi Icelandair í maí var 419 þúsund og jókst um 14% ásamt því að framboð var aukið um 7%. Sætanýting var 82,5% samanborið við 77,7% í maí í fyrra. Farþegum fjölgaði á öllum mörkuðum, þó mest á markaðinum til Íslands, um 36 þúsund, eða sem nemur 33%.
N-Atlantshafsmarkaðurinn var stærsti markaður félagins í mars með 50% af heildarfarþegafjölda. Aukning á þeim markaði var 4%. Farþegum á heimamarkaðinum frá Íslandi fjölgaði um 15% samanborið við fyrra ár. Komustundvísi í leiðarkerfi félagsins í maí nam 72% samanborið við 63% í maí á síðasta ári.
Farþegar Air Iceland Connect voru 25 þúsund og fækkaði um 8% á milli ára. Skýrist það aðallega af flugi til Aberdeen og Belfast sem var lagt niður í maí á síðasta ári. Sætanýting nam 69,2% og jókst um 7,2 prósentustig á milli ára.
Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 12% milli ára vegna færri verkefna en á sama tíma fyrir ári og viðhalds flugvéla. Fraktflutningar jukust um 19%. Seldar gistinætur hjá hótelum félagsins jukust um 31%. Herbergjanýting var 82,9% samanborið við 72,8% í maí 2018. Aukning var á öllum hótelum félagsins bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni.
