Frumvarpið er nú til annarrar umræðu á Alþingi og verður henni haldið áfram í dag, samkvæmt dagskrá þingfundar. Gefið hefur verið út að mikill einhugur sé um málið í atvinnuveganefnd.
Verði frumvarpið að lögum verður áhættumat vegna erfðablöndunar lögfest. Þá verða innleiddir fjárhagslegir hvatar fyrir fyrirtæki í sjókvíalaxeldi að styðjast við lokaðar sjókvíar í stað opinna.

Samtökin Icelandic Wildlife Fund, sem berjast gegn sjókvíaeldi, hafa einnig lagst gegn frumvarpinu, einkum á grundvelli umhverfissjónarmiða. Jón Kaldal talsmaður samtakanna segir einnig mikilvægt að áhættumat Hafrannsóknarstofnunar verði í höndum vísindamanna og ekki gert pólitískt.
Jón tekur þó ekki í sama streng og SFS varðandi frestun á afgreiðslu frumvarpsins. Hann segist ekki viss um að frestun muni hafa nokkur áhrif á stöðuna í ljósi sterkrar stöðu forsvarsmanna fiskeldis hér á landi.
„Það er ofboðslegur þrýstingur af hálfu fiskeldisins að ýmis mál verði liðkuð eldi í hag. Við þekkjum mjög vel kraftinn, eða allavega allavega þá miklu fjármuni að baki þessum „lobbýisma“. Og við höfum áhyggjur af því að ef málinu verði frestað þá muni sjónarmið eldisins verða enn sterkari.“