Megan er 34 ára gömul og hefur leikið fyrir sjö félagslið í þremur heimsálfum. Hún er glaðlynd baráttukona sem hefur barist ötullega fyrir jöfnum kjörum karla og kvenna í fótbolta og mannréttindum hinsegin fólks.
Mesta athygli hefur hún vakið fyrir að standa uppi í hárinu á Donald Trump Bandaríkjaforseta. „Ég ætla ekki í fjandans Hvíta húsið,“ sagði hún í júnímánuði spurð hvort hún væri spennt fyrir heimsókn þangað. Í viðtali á CNN horfði hún beint í myndavélina og talaði til forsetans: „Skilaboð þín útiloka fólk. Þú útilokar mig, þú útilokar fólk sem lítur út eins og ég, þú útilokar litað fólk og þú útilokar jafnvel fólk sem styður þig,“ sagði hún. „Þú dásamar tímabil sem var ekki frábært fyrir alla – það var kannski frábært fyrir nokkra útvalda og kannski eru Bandaríkin frábær fyrir nokkra einstaklinga núna, en þau eru það ekki fyrir alltof marga Bandaríkjamenn.“

Bandarísku þingkonurnar Dianne Feinstein og Patty Murray notuðu tækifærið eftir sigur landsliðsins og lögðu fram frumvarp um sanngjörn laun íþróttafólks. Verði það samþykkt verður það ólöglegt hjá bandarískum íþróttasamböndum að mismuna eftir kyni.
Megan hefur einnig beint spjótum sínum að Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA og gagnrýnt það að heildarfjárhæðin sem lið í karlaflokki fengu fyrir þátttöku á heimsmeistaramótinu var 400 milljónir dollara en lið í kvennaflokki fengu aðeins tæpar 30 milljónir dollara.
Landsliðskonur fylktu liði á Manhattan í vikunni og fögnuðu með íbúum New York og þar hélt Megan ræðu sem vakti athygli um allan heim því hún bað fólk um að sýna samstöðu þrátt fyrir ólíkar skoðanir og lífsstíl. „Þetta er mitt ákall til allra, við verðum að gera betur. Við verðum að elska meira, hata minna. Við verðum að hlusta meira og tala minna. Við verðum að átta okkur á því að þetta er ábyrgð okkar allra.“
Í kjölfarið skrifaði Andrew Mark Cuomo, ríkisstjóri New York, undir frumvarp um sömu laun fótboltafólks í New York-ríki. Laun knattspyrnukarla- og kvenna verði héðan í frá jöfn. „Það eru engin rök fyrir því hvers vegna konurnar eru með lægri laun en karlarnir. FIFA og bandaríska knattspyrnusambandið hafa komið illa fram við landsliðskonurnar,“ sagði hann í ræðu sinni.