Fyrsti keppnisdagur var í gær þar sem allir íslensku keppendurnir komust í gegnum niðurskurð. Annie Mist Þórisdóttir situr í öðru sæti eftir fyrsta keppnisdaginn, Katrín Tanja Davíðsdóttir í tólfta sæti, Þuríður Erla Helgadóttir í sextánda sæti, Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir í 26. sæti og Oddrún Eik Gylfadóttir í 32. sæti.
Björgvin Karl Guðmundsson situr í tólfta sæti eftir fyrsta daginn en þær Birna María og Svanhildur Gréta ræddu við hann í Madison þar sem hann fór yfir mistökin sem hann gerði sem varð til þess að hann missti af þriðja sætinu í fyrstu keppnisgreininni og þar af leiðandi þúsund dollurum, eða því sem nemur um 122 þúsund krónum miðað við gengi dagsins í dag.
Þá er einnig rætt er við íþróttablaðamanninn og CrossFit-spekinginn Tommy Marquez sem talar um gengi Íslendinganna á fyrsta keppnisdeginum.
Vísir og Stöð 2 Sport fylgist grannt með gangi mála á CrossFit-leikunum í ár með beinum útsendingum. Hægt er að horfa á beinu útsendingunni á Vísi og Stöð 2 Sport 3 sem hefst klukkan 14:30 en bein textalýsing hefst klukkan 14.