Innlent

Ekið á tvo ljósastaura með tuttugu mínútna millibili

Sylvía Hall skrifar
Nokkur erill var hjá lögreglunni í nótt.
Nokkur erill var hjá lögreglunni í nótt. Vísir/Vilhelm
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um umferðaróhapp í Ártúnsbrekku skömmu eftir klukkan 18 í gærkvöldi. Þar hafði ökumaður misst stjórn á bifreið sinni sem hafnaði á ljósastaur og var bifreiðin óökufær. Um tuttugu mínútum síðar barst tilkynning um samskonar umferðaróhapp í Hafnarfirði.

Báðir ökumenn sluppu ómeiddir frá óhöppunum og var HS veitu og Orkuveitunni tilkynnt um óhöppin vegna skemmda á ljósastaurunum. Þá voru báðir bílar dregnir af vettvangi sökum skemmda.

Skömmu eftir klukkan sjö í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás á heimili í Laugardal þar sem um var að ræða tvær konur. Árásarþoli var fluttur á slysadeild með sár á höfði og árásaraðili var vistaður í fangageymslu lögreglu. Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglu.

Þá barst lögreglu tilkynning um aðra líkamsárás í Hlíðum á tólfta tímanum í gærkvöldi. Tveir menn voru handteknir eftir að hafa farið á brott í bifreið og voru vistaðir í fangageymslu. Ökumaður bifreiðarinnar er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur án ökuréttinda. Árásarþoli var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og er málið nú til rannsóknar.

Ökumaður í Kópavogi var stöðvaður á níunda tímanum í gærkvöldi grunaður um ölvunarakstur. Í Hafnarfirði var svo annar ökumaður stöðvaður, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna þegar klukkan var að ganga tvö. Bifreiðin reyndist vera ótryggð og voru skráningarnúmer klippt af.

Þá var þriðji ökumaðurinn stöðvaður í miðbæ Reykjavíkur skömmu eftir klukkan þrjú, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×