Umfangsmesta hópuppsögn fjármálafyrirtækis frá hruni fór fram í Arion banka í dag þar sem 102 misstu vinnuna. Þá var 20 sagt upp hjá Íslandsbanka og 12 hjá fjárhirðinum Valitor. Hljóðið er þungt í starfsmönnum og þá íhuga Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja að vísa málinu til félagsdóms.
Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að uppsagnirnar hefðu verið umfangsmeiri en stofnunin hefði búist við. Hún ræddi uppsagnirnar og horfur í efnahagslífinu í ljósi þeirra nánar í þættinum Reykjavík síðdegis í dag.

Gerið þið ráð fyrir enn meiri dýfu?
„Ég skal ekki segja. Ég óttast að hún verði aðeins dýpri. Ég á nú von á því alveg eins“
Að það sé von á fleiri fjöldauppsögnum?
„Já, ég yrði ekki hissa. Við getum orðað það þannig. En ég vona það besta.“
Samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar voru atvinnulausir 8.500 í ágúst, eða 4,4%, sem er 1,3 prósentustigum hærra en í júlí.
Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun, sem Unnur vísaði í, voru 6748 á atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun í ágúst og atvinnuleysi þannig um 3,5%, sem hún segir ríma við aukninguna á árinu. Enn á eftir að fara yfir atvinnuleysistölur fyrir septembermánuð.
Viðtalið við Unni má hlusta á í heild í spilaranum hér að neðan.