Leeds United og Marcelo Bielsa, knattspyrnustjóri, fengu háttvísiverðlaun FIFA á verðlaunahófi alþjóðasambandsins í gærkvöld. Verðlaunin fékk Leeds fyrir að leyfa Aston Villa að skora mark í leik þeirra.
Leeds og Aston Villa mættust í mikilvægum leik á endaspretti síðasta tímabils í ensku B-deildinni.
Bæði lið voru í hörku baráttu um sæti í úrvalsdeildinni og eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Mateusz Klich fyrir Leeds.
Markið kom hins vegar þegar framherji Villa lá meiddur í jörðinni og ætlunin hafði verið að setja boltann út fyrir svo hann gæti fengið aðhlynnigu. Klich tók hins vegar ekki þátt í því og skoraði.
Bielsa ákvað þá að skipa liði sínu að leyfa Villa að skora til þess að jafna leikinn. Leiknum lauk 1-1 og úrslitin reyndust Leeds dýrkeypt þar sem félagið missti af sæti upp í úrvalsdeild.
„Sumir í fótboltaheiminum segja að sigurinn sé það eina sem skipti máli, eini tilgangurinn með því að leika íþróttina,“ sagði í umsögn FIFA um viðurkenninguna.
„Það eru aðrir sem hafa önnur gildi ofar því að vinna. Það sem var í húfi gerir gjörðir Bielsa enn merkilegri og fær lið hans háttvísiverðlaunin fyrir.“
