Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, krafði Svandísi svara um hvernig hún hyggist bregðast við því neyðarástandi sem ríki á Landspítalanum. Spurði hann hvort ekki væri tímabært að víkja frá „samþjöppunarstefnu,“ og aukinni vinstrivæðingu í heilbrigðiskerfinu með því að flytja æ fleiri verkefni til Landspítalans.
Fram kom í fréttum um helgina að launabætur ríkisins til Landspítalans hafi verið vanáætlaðar um allt að milljarð á ári. Í fyrirspurn sinni vísaði Sigmundur til þess að formaður hjúkrunarráðs spítalans hafi sagt að öryggi sjúklinga sé ógnað í ljósi þrenginga á spítalanum.
Sjá einngi: Landspítalinn þarf um milljarð í launabætur frá ríkinu
Í svari sínu vísaði Svandís til þeirrar heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem hafi verið samþykkt með miklum meirihluta á Alþingi. Þar sé „gríðarlega mikið lagt í heilbrigðisþjónustuna og er ekki vanþörf á að skýra betur hver gerir hvað í heilbrigðisþjónustunni,“ sagði Svandís.

Sigmundur krafðist skírari svara um hvernig ráðherra ætlaði að bregðast við. Í síðara svari sínu sagði Svandís leitt að svo virðist sem Sigmundur vilji frekar stuðla að sundrung, heilbrigðisstefnan hafi verið samþykkt með stuðningi 45 þingmanna minni- og meirihluta á Alþingi. „Og af því að háttvirtur þingmaður spyr sérstaklega um hvernig á að tryggja það að þessir þættir séu unnir þar sem þeim ber, þá er það svo að við erum að fjölga hjúkrunarrýmum í stórkostlega mikilvægri uppbyggingu sem stendur hér yfir,“ sagði Svandís.