Innlent

Þyrla sótti rjúpnaskyttu sem varð fyrir slysaskoti í Eldhrauni

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjúkrabíll frá Klaustri ók til móts við TF-LÍF sem tók við manninum við Vík í Mýrdal.
Sjúkrabíll frá Klaustri ók til móts við TF-LÍF sem tók við manninum við Vík í Mýrdal. Lögreglan á Suðurlandi
Óskað var eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sækja rjúpnaskyttu á sjötugsaldri sem varð fyrir slysaskoti í fótinn í Eldhrauni í dag. Samkvæmt upplýsingum lögreglu var maðurinn með fulla meðvitund en hlaut ljótan áverka á öðrum fætinum.

Tilkynning barst lögreglunni á Suðurlandi um slysaskotið laust eftir klukkan 15:00 í dag, að sögn Sigurðar Sigurbjörnssonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi. Skot hafði þá hlaupið úr byssu mannsins og hæft hann í fótinn.

Veiðifélagar mannsins hringdu eftir aðstoð og veittu honum fyrstu hjálp. Hann var í fyrstu fluttur á heilsugæsluna á Kirkjubæjarklaustri. Þar mat læknir áverka mannsins það alvarlega að ákveðið var að kalla til þyrlu Gæslunnar.

Sigurður segir að ekið hafi verið með manninn á móti TF-LÍF sem tók við honum á flugvellinum við Vík í Mýrdal um klukkan 16:00 síðdegis. Ekki var hægt að veita frekari upplýsingar um líðan mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×